Færsluflokkur: Lífstíll

Lestur og jóga

Quote of the moment:

"You will face your life, everyday. And whatever you don’t face today you will face tomorrow. And if you refuse to face then, you will have nothing but sorrow." - Yogi Bhajan
 

Er að lesa "Ný jörð" e. Eckhart Tolle þessa dagana og er ekki laust við að hún snerti mig þó nokkuð mikið. Ég hef alltaf vara á þegar ég tek upp svokallaðar "sjálfshjálparbækur" en þessi er að skila þó nokkrum nýjum hugsunum inní heilann!

Hann talar mikið sársaukalíkamann sem við burðumst með, mis stóran og mis lengi en flestir eitthvað. Það sem mér finnst stórkostlegt er að gefa þessum tilfinningum/höftum/neikvæðni/o.s.frv. nafn og geta þar með aðskilið hamingjuna frá óhamingjunni. Þið verðið að lesa bókina til að skilja hvað ég er að segja því við lesum jú öll mismunandi hluti útúr sömu orðum ;)

Eckhart Tolle kemur líka fyrir í mynd sem ég sá nýverið sem ber nafnið "Living Lumineries". Þar er tekið fyrir sjálfið/egóið og hvernig það er uppspretta allrar vansælu/óhamingju okkar.  Ég þarf að horfa á hana nokkrum sinnum til viðbótar því það er svo margt þar sem hjálpar til við að átta okkur á hvernig við getum unnið með egóið.

Það eru sannarlega máttug skilaboð sem koma frá bæði myndinni og bókinni og eins og vill oft vera þá er þetta alveg í takti við það sem ég er að takast á við í jóganu þessa dagana. Ég get viðurkennt hvað sársaukalíkami minn hefur reynt að skemma framfarirnar hjá mér og egóið er öskrandi á athygli 24/7!! Það eina sem ég get gert er að halda áfram á þessari braut og vona að egóið lækki raustina svo ég heyri betur í mínu innra ég-i ;D

Gangi ykkur vel með ykkur!! 

 


Jóga ferðalag I

Mig langar til að deila með ykkur hverju ég er að upplifa í gegnum jógað þessar vikur. Ég opnaði þetta blogg nú eiginlega til þess að hafa það sem megin uppistöðu en hef þurft þennan tíma til að vinna upp hugrekki til að opna mig fyrir ykkur.

Ég hef stundað jóga af og til sl. 11 ár ca. og þegar ég meina af og til þá hafa komið 2-3 ára hlé inn á milli. Ég byrjaði í almennu jóga (líklega verið Hatha) á líkamsræktarstöð sem ég stundaði um tíma og frá fyrsta tíma fannst mér þetta eiga ofsalega vel við mig. Ég vann þá sem aðstoðar verkefnastjóri í Þúsaldarverkefninu svokallaða eða Y2K eins og það var líka nefnt, fyrir stóran alþjóðlegan banka í London. Það að komast í þessa vin sem jógað var, hreinlega bjargaði sálartetrinu í öllum þeim ysi og þysi sem stórborginni fylgir - þar náði ég loksins einhverri slökun.

Þó ég hafi stundað jógað í þessari líkamsræktarstöð í einhvern tíma hef ég síðan verið þeirrar skoðunar að það eigi yfir hö fuð ekki heima inná slíkum stöðvum. Orkan þar er allt önnur. Yfirleitt gengur slík stöð útá að skaffa aðstöðu fyrir fólk til að pumpa það upp svo að segja með þar tilheyrandi tónlist í bakgrunninn. Það er svo sannarlega ekki meining mín að setja útá það umhverfi - bara alls ekki! Öll hreyfing í hófi er góð og hefur jákvæð áhrif á fólk í alla staði. Orkan sem fylgir jóganu er bara miklu "blíðari" - ef þannig er hægt að orði komast. Hún er meira nærandi finnst mér - en nú er ég farin útfyrir efnið aðeins :)   

Ég tók svo þátt í að setja á stofn jógastöð í London fyrir ca 5 árum síðan. Fjármálaheimurinn þar var að draga saman seglin - eins og hann gerir stundum og Íslendingar eru að upplifa í fyrsta skipti þessa dagana. Það var ofsalega erfitt að fá vinnu í fjármálageiranum en mér hafði verið sagt upp rétt fyrir jól ásamt 9000 öðrum bankastarfsmönnum víðsvegar um borgina. Staðan var þannig að maður komst ekki einu sinni í viðtal hjá ráðningarskriftstofunum hvað þá meir! En u.þ.b. einum og hálfum mánuði seinna rakst ég á íslenskan mann sem var að setja upp fyrrnefnda jógastöð. Mér þótti þetta geysilega spennandi hjá honum og bauð honum aðstoð mína þar sem ég var hvort eð er ekki að vinna. Það gekk á ýmsu en loks kom að opnuninni og allir sem komu að þessu mikla verkefni mjög stoltir af útkomunni - einhverri allra glæsilegustu jógastöð sem nokkurn tíma hafði verið opnuð þar í borg og það inní miðri Chelsea!! Öll aðstaða til mikillar fyrirmyndar enda hafði engu verið til sparað í efnisvali og ráðningum. Þarna var t.d. settur upp hitabúnaður í einum salnum sem virkaði eins og hann væri hitaður með sólargeislum og fyrir vikið var loftið ekki eins þurrt og það hefði annars verið með hefðbundnum hiturum. Þessi hiti gerði það að verkum að líkaminn hitnaði fyrr og meira en annars og gerði manni kleift að fara dýpra inní stöðurnar en annars og er þannig kraftmeira. Enda var það kallað "Dynamic Yoga" :D

Má segja að þetta hafi markað tímamót í minni jógaiðkun og hefur það verið hluti af mínum lífsstíl síðan. Það er ekki síst vegna þess að þar fann ég hvaða andlegu áhrifin af þessari ástundun voru mögnuð. Ég varð stefnufastari, einbeittari í því sem ég var að gera, leið líkamlega mjög vel og allur minn ásetningur varð fljótari að verða að veruleika. Þetta er nú ekkert smá afrek fyrir mig sem hef átt við þokkalegan athyglisbrest að stríða (þó það sé ekki staðfest af sérfræðingi - ennþá).  


Næring og geðheilsa

Ég rakst á áhugaverð grein í fylgiblaði Geðhjálpar um daginn en þetta er upprunið frá Mental Health Foundation (Bresku geðheilsusamtökin). Þar kemur fram að með því að passa uppá góðar vítamín- og bætiefna birgðir er hægt að vinna á móti algengum "sinnakvillum" s.s. kvíða, pirringi o.fl. Gott innlegg til að hjálpa okkur sjálfum með næringunni einni saman.

Kvíði: Skortur á fólín sýru

Pirringur: Skortur á B6, magnesíum og seleníum

Sinnuleysi: Skortur á zinki

Stress: Skortur á B6

Minnisleysi: Skortur á B5, B6 og B12 ásamt omega 3 fitusýrum

Einbeitingaskortur: Skrotur á B1 og B12 vitamínum og zínki

Þunglyndi: Skortur á B3, B6 og C vítamínum, fólinsýru (folic acid), magnesíum, omega 3 fitusýrum, seleníum, trytophan og zinki

 


Gósentíð...?

Hvernig stendur á því að þeim mun betur sem við höfum það sbr. síðast liðin ár þar sem kaupmáttur hefur aldrei verið hærri, laun að hækka, fólk að kaupa sér villur og glæsifáka hægri vinstri þá er opinber þjónusta sífellt að fara versnandi???

  • Strætó hefur aldrei veitt jafn lélega þjónustu (ok kannski ekki rekið af borginni lengur en vinnur í þágu almennings... eða á að gera það)
  • Heilsugæsla aldrei verið dýrari fyrir hinn óbreytta launþega (ég veit að það er búið að fella niður kostnað við að koma með börnin til heimilislæknisins en sá kostnaður kemur fljótt í vasa ríkisins sem skattur af sýklalyfjum sem dælt er út í enn meira magni þar sem fleiri hafa "efni" á að fara með börnin til læknis)
  • Það býr enn fólk á götunni og ekkert virðist vera að birta til hjá þessum óheppna hópi fólks sem ekki kallaði það yfir sig að vera með geðraskanir
  • Eigum við eitthvað að ræða heilbrigðiskerfið.....???!!!
  • Vegir landsins eru enn eins og í þriðjaheimslandi - mjóir, brattir og ófærir góðan hluta árs sums staðar. Ekki í nokkurri líkingu við neina aðra vestræna þjóð sem við viljum helst bera okkur saman við. Ég get líka gargað af pirringi þegar kemur að vegamerkingum hvort sem við erum að tala um í Reykjavík (Rvík C á einu skilti sem ég reikna með að þýði central og svo Rvik A og V á öðrum sem eiga að standa fyrir Austur og Vestur Woundering - í guðs bænum reynið að ákveða hvaða tungumál á að nota!!) - þetta var nú bara útúrdúr!

Ég bara get ekki annað en furðað mig á þessu. Ég veit að það er til góður hópur fólks sem skrifar í blöðin og benda á þetta en afhverju eru ráðamenn þjóðarinnar ekki með þetta sem forgangsatriði?  


Mætt í bloggið!

Kæru vinir,

Hún er mætt!! Þykist hafa eitthvað að segja sem ykkur langar til að vita ;) Bið ykkur um að sýna biðlund á meðan ég læri á kerfið. Lofa að vera ekki með eitthvað leiðindarnöldur heldur eitthvað uppbyggilegt og gefandi. Kannski eina eða tvær fréttir af Elfu og Alexöndru svona til að leyfa ykkur að fylgjast með þeim. Endilega verið óhrædd við að koma með athugasemdir og skrifa í gestabókina.

Frekari greinaskrif fljótlega! Sat Nam 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband