Jóga ferðalag I

Mig langar til að deila með ykkur hverju ég er að upplifa í gegnum jógað þessar vikur. Ég opnaði þetta blogg nú eiginlega til þess að hafa það sem megin uppistöðu en hef þurft þennan tíma til að vinna upp hugrekki til að opna mig fyrir ykkur.

Ég hef stundað jóga af og til sl. 11 ár ca. og þegar ég meina af og til þá hafa komið 2-3 ára hlé inn á milli. Ég byrjaði í almennu jóga (líklega verið Hatha) á líkamsræktarstöð sem ég stundaði um tíma og frá fyrsta tíma fannst mér þetta eiga ofsalega vel við mig. Ég vann þá sem aðstoðar verkefnastjóri í Þúsaldarverkefninu svokallaða eða Y2K eins og það var líka nefnt, fyrir stóran alþjóðlegan banka í London. Það að komast í þessa vin sem jógað var, hreinlega bjargaði sálartetrinu í öllum þeim ysi og þysi sem stórborginni fylgir - þar náði ég loksins einhverri slökun.

Þó ég hafi stundað jógað í þessari líkamsræktarstöð í einhvern tíma hef ég síðan verið þeirrar skoðunar að það eigi yfir hö fuð ekki heima inná slíkum stöðvum. Orkan þar er allt önnur. Yfirleitt gengur slík stöð útá að skaffa aðstöðu fyrir fólk til að pumpa það upp svo að segja með þar tilheyrandi tónlist í bakgrunninn. Það er svo sannarlega ekki meining mín að setja útá það umhverfi - bara alls ekki! Öll hreyfing í hófi er góð og hefur jákvæð áhrif á fólk í alla staði. Orkan sem fylgir jóganu er bara miklu "blíðari" - ef þannig er hægt að orði komast. Hún er meira nærandi finnst mér - en nú er ég farin útfyrir efnið aðeins :)   

Ég tók svo þátt í að setja á stofn jógastöð í London fyrir ca 5 árum síðan. Fjármálaheimurinn þar var að draga saman seglin - eins og hann gerir stundum og Íslendingar eru að upplifa í fyrsta skipti þessa dagana. Það var ofsalega erfitt að fá vinnu í fjármálageiranum en mér hafði verið sagt upp rétt fyrir jól ásamt 9000 öðrum bankastarfsmönnum víðsvegar um borgina. Staðan var þannig að maður komst ekki einu sinni í viðtal hjá ráðningarskriftstofunum hvað þá meir! En u.þ.b. einum og hálfum mánuði seinna rakst ég á íslenskan mann sem var að setja upp fyrrnefnda jógastöð. Mér þótti þetta geysilega spennandi hjá honum og bauð honum aðstoð mína þar sem ég var hvort eð er ekki að vinna. Það gekk á ýmsu en loks kom að opnuninni og allir sem komu að þessu mikla verkefni mjög stoltir af útkomunni - einhverri allra glæsilegustu jógastöð sem nokkurn tíma hafði verið opnuð þar í borg og það inní miðri Chelsea!! Öll aðstaða til mikillar fyrirmyndar enda hafði engu verið til sparað í efnisvali og ráðningum. Þarna var t.d. settur upp hitabúnaður í einum salnum sem virkaði eins og hann væri hitaður með sólargeislum og fyrir vikið var loftið ekki eins þurrt og það hefði annars verið með hefðbundnum hiturum. Þessi hiti gerði það að verkum að líkaminn hitnaði fyrr og meira en annars og gerði manni kleift að fara dýpra inní stöðurnar en annars og er þannig kraftmeira. Enda var það kallað "Dynamic Yoga" :D

Má segja að þetta hafi markað tímamót í minni jógaiðkun og hefur það verið hluti af mínum lífsstíl síðan. Það er ekki síst vegna þess að þar fann ég hvaða andlegu áhrifin af þessari ástundun voru mögnuð. Ég varð stefnufastari, einbeittari í því sem ég var að gera, leið líkamlega mjög vel og allur minn ásetningur varð fljótari að verða að veruleika. Þetta er nú ekkert smá afrek fyrir mig sem hef átt við þokkalegan athyglisbrest að stríða (þó það sé ekki staðfest af sérfræðingi - ennþá).  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband